Framleiðsla

Plastiðnaðurinn framleiðir allt milli himins og jarðar, allt frá skipsskrokkum niður í tannþráð. Meðal mikilvægustu framleiðsluaðferðum í íslenskum plastiðnaði eru flöskublástur, sprautusteypa, frauðplastgerð og hitamótun.

Plastiðjan framleiðir flöskur úr PET hráefni með svokallaðri stretch blow moulding aðferð. Fyrirtækið á þrjár vélar til þess að blása flöskur og er framleiðslugetan rúmlega 40 milljónir flaskna á ári en árið 2008 voru framleiddar 17 Milljónir flaskna hjá Plastiðjunni.

Kostir þessara framleiðsluaðferðar er hversu stöðug framleiðslugæðin eru og þykir þessi aðferð henta mjög vel þegar framleiða á mikið magn af eins hlutum í sömu gæðum.

Í flöskublæstri er aðallega notast við hitadeigt plast en þó er einnig hægt að nota hitafast og gúmmíteygjanlegt plast þó hitadeigt efni sé algengasta framleiðsluefnið.Í flöskublæstri eru preform hituð og síðan teygð og að lokum blásin út í ákveðið mót sem ræður endalögun vörunnar.

Plastiðjan framleiddi vörur úr frauðplasti allt frá stofnun fyrirtækisins fram til ársins 2009. framleiðsluaðferðin sem notast var við er freyðing með EPS kornum í framleiðslu frauðplasts.

Freyðingin fer þannig fram að litlar PS kúlur eru þandar út með heitri gufu. Plastkúlurnar fyllast að andrúmslofti og eru geymdar í geymslusílóum þar til þær eru settar í form og hitaðar með heitri gufu þar til þær hafa bundist hvort annarri.
Efnið er kælt niður á miklum hraða til þess að plastkúlurnar falli ekki saman.

Árið 2009 var þessi framleiðsla lögð af hjá fyrirtækinu til þess að rýma fyrir nýjum framleiðslulínum félagsins.

Sprautusteypa hefur tíðkast hjá fyrirtækinu um nokkurt skeið og á Plastiðjan eina slíka vél. Sprautusteypa hentar einkar vel til fjöldaframleiðslu því hægt er að framleiða hluti í nákvæmlega sömu stærð og  að jöfnum gæðum.

Í sprautusteypu er aðallega notast við hitadeigt plast en þó er einnig hægt að nota hitafast og gúmmíteygjanlegt plast þó hitadeigt efni sé algengasta framleiðsluefnið.

Framleiðsluferill Sprautusteypu fer þannig fram að fyrst er plastið matað í trekt sem flytur plastið ofaní hólk þar sem það er látið bráðna. Algengasta hitastigið er 200 – 300°C til þess að bræða plastið en er þó mismunandi eftir plast tegundum.

Því næst er notast við skrúfu til þess að þrýsta bráðnu plastinu inn í mótið. Þegar plastið er komið inn í mótið hefst kælingartími efnisins við það frýs plastið og harðnar í lögun mótsins.

Að lokum er mótið opnað og hlutnum er kastað út með staut eða þrýstilofti. Því næst lokast mótið og er tilbúið fyrir nýja mótun.

Thermoforming eða hitamótun er ný framleiðsluaðferð hjá Plastiðjunni og er áætluð framleiðslugeta um 170 milljónir eintaka á ári.

Hitamótun er framleiðsluaðferð þar sem plast filma er hituð upp að mýkingarstigi eða því marki sem hægt er að forma efnið inn í mót. Filman er sett yfir mót þar sem hún festist við kanta þess á meðan loftþrýstingur eða undirþrýstingur ýtir plastfilmunni að mótinu.

Við þrýstinginn leggst plastfilman að mótinu og tekur á sig lögun mótsins. hitamótun er lang algengasta framleiðsluaðferð plasts og er hún mikið notuð til þess að framleiða dósir og bakka undir jógúrt, skyr og þess háttar.